Fella niður allar ferðir til loka mars

Hið breska Jet2 hefur síðustu vetur staðið fyrir ferðum hingað til lands en nú falla niður ferðir næstu mánaða.

Þota á vegum Jet2 við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd: Isavia

Öll starfsemi ferðarisans Jet2 í Bretlandi mun liggja niðri fram til 25. mars vegna þeirra hertu aðgerða sem bresk stjórnvöld hafa gripið til vegna útbreiðslu kórónaveirunnar þar í landi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Jet2 sendi frá sér fyrr í dag.

Þar með er útséð með Íslandsferðir á vegum Jet2 frá átta breskum flugvöllum nú í febrúar og mars. Um er að ræða stuttar Íslandsferðir þar sem gist er í Reykjavík og gefst ferðafólkinu svo kostur á dagsferðum frá höfuðborginni.

Á dagskrá Jet2 eru líka ferðir hingað til lands í apríl og tilkynningu Jet2 segir að viðskiptavinir sem eigi bókað í ferðir með fyrirtækinu frá og með 26. mars nk. fái skilaboð fyrr en síðar um stöðu mála.

Þess má geta að ferðir Jet2 eru aðeins fyrir þá sem hefja ferðalagið í Bretlandi. Það er s.s. ekki hægt að kaupa farmiða með félaginu frá Íslandi.