Framkvæmdastjórar Icelandair í stjórnum orkufyrirtækja

Birna Ósk Einarsdóttir og Tómas Ingason.

Skeljungur seldi í gær öll hlutabréf sín í Icelandair samsteypunni og einnig kauprétti. Fyrirtækið eignaðist 0,44 prósent hlut í flugfélaginu eftir hlutafjárútboð þess síðastliðið haust.

Icelandair bar skylda til að tilkynna um söluna því Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, er varaformaður stjórnar Skeljungs. Hún er því með stöðu innherja.

Skeljungur er í dag skilgreint sem fjölorkufélag en í stjórn annars orkufyrirtækis, Orku náttúrunnar, situr Tómas Ingason, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Icelandair.

Tilkynnt var um skipun Tómasar í stjórn Orku náttúrunnar í maí í fyrra og þá sagði að orkufyrirtækið hefði auglýst eftir stjórnarmanni og var Tómas valinn í kjölfarið.