Fyrsta fimm stjörnu hótelið í Reykjavík opnar í vor

Edition hótelið við Hörpu verður vígt í vor samkvæmt heimildum Túrista. Framkvæmdir við bygginguna eru nú á lokastigi og mun stjórnendateymi hótelsins vera fullskipað.

Á Edition verða 250 herbergi og verður þetta fyrsta hótelið í Reykjavík sem telst vera fimm stjörnu. Á hótelinu verður líka aðstaða fyrir veislur og ráðstefnur auk veitingastaða og heilsulindar.

Þetta verður fjórða Edition hótel í Evrópu en hótelkeðjan er í eigu Marriott sem er stærsta hótelfyrirtæki heims.

Með tilkomu Editon verður umtalsverð breyting á íslenska hótelmarkaðnum því sem fyrr segir er þetta fyrsta hótelið í Reykjavík sem telst vera í fyrsta flokks samkvæmt hinni hefðbundu stjörnugjöf.

Og samkvæmt viðmælendum Túrista, sem vel þekkja til í hótelgeiranum, er líklegt að opnun svona stórs hótels, í fyrsta gæðaflokki, setji pressu á verðskrá þeirra hótela sem hingað til hafa verið þau fínustu í höfuðborginni. Alveg óháð heimsfaraldrinum sem nú geysar.