„Gefur okkur von um að geta aukið flugið í sumar“

Flugáætlun Icelandair á komandi sumri gerir ráð fyrir að framboðið verði 25 til 30 prósent lægra en sumarið 2019. Í gær boðaði ríkisstjórnin afléttingu sóttvarnaraðgerða við landamærin frá og með 1.maí nk.

MYND: ICELANDAIR / SIGURJÓN RAGNAR

„Við erum ánægð með að sjá aukinn fyrirsjáanleika í sóttvarnaraðgerðum á landamærum og við teljum þessa niðurstöðu ábyrgt og skynsamlegt framhald af þeim reglum sem hafa verið í gildi. Það eru góðar fréttir að stefnt sé að því að rýmka sóttvarnarreglur frá og með 1. maí og gefur okkur von um að geta aukið flugið í sumar,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurð um nýju reglurnar.

„Ferðavilji og áhugi á Íslandi sem áfangastað er klárlega til staðar. Það á hins vegar eftir að koma betur í ljós þegar nær dregur hvernig eftirspurn þróast því hún er auðvitað háð því hvernig ástandið á faraldrinum verður á okkar helstu mörkuðum,“ bætir Ásdís við.

Hinar breyttu aðgerðir við íslensku landamærin byggja á tilmælum Evrópusambandsins. Ennþá liggur ekki fyrir hvernig málum verður háttað við landamæri Bretlands né í Bandaríkjunum og Kanada í sumar. Stór hluti af umsvifum Icelandair byggir á einmitt á fólksflutningum milli Evrópu og Norður-Ameríku. Án þess farþegahóps verður erfitt fyrir félagið að halda úti tíðum ferðum til bæði Evrópu og Norður-Ameríku líkt og Túristi hefur áður fjallað um.

Ásdís segir að boðaðar breytingarnar við landamærin hafi ekki mikil áhrif á flugáætlun Icelandair á þessu stigi málsins.

„Við munum halda áfram að vinna eftir því vinnulagi sem við höfum fylgt síðustu misseri – að viðhalda sveigjanleika i leiðakerfinu til að geta gripið möguleg tækifæri enda ástandið enn síbreytilegt. Flugáætlun okkar verður því áfram í stöðugri endurskoðun og uppfærð reglulega á tímabilinu í takt við stöðu faraldursins og ferðatakmarkana hverju sinni.“