Hættir sem forstjóri SAS

Þann 1. júlí hættir Rickard Gustafsson störfum hjá SAS. Mynd: SAS

Svíinn Rickard Gustafsson sem leitt hefur skandinavíska flugfélagið SAS síðastliðinn áratug hefur sagt starfi sínu lausu. Í tilkynningu frá flugfélaginu nú í kvöld segir að Gustafsson ætli að söðla um í sumar og hefja störf hjá ónefndri iðnaðarsamsteypu í Svíþjóð.

Stjórnarformaður SAS segist vera bæði svekktur og leiður yfir ákvörðun forstjórans að segja sig frá því mikilvæga hlutverki sem hann gegnir hjá flugfélaginu. Hann þakkar þó Gustafsson fyrir vel unnin störf í þágu SAS síðustu tíu ár.

Af forstjórum stærstu flugfélaga Norðurlanda hefur Gustafsson verið sá sem setið hefur langlengst. Þar á eftir kemur Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sem tók við íslenka félaginu í sumarlok 2018. Tobi Manner, forstjóri Finnair, kom til starfa hjá finnska flugfélaginu í ársbyrjun 2019 og Jacob Schram hefur haldið um stjórnartaumana hjá Norwegian í eitt ár.

Þess má geta að Gustafsson var nýverið kjörinn stjórnarformaður alþjóðasamtaka flugfélaga, IATA, en hann lætur nú af því embætti.