Heimila MAX þotum að fljúga um evrópska lofthelgi á ný

TÖLVUTEIKNING: BOEING

Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA, aflétti í dag kyrrsetningu Boeing MAX þotanna sem staðið hefur yfir síðan í mars árið 2019. Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum og Kanada hafa gert slíkt hið sama.

Í tilkynningu frá EASA er haft eftir Patrick Ky, yfirmanni stofnunarinnar að hann teldi þoturnar vera orðnar öruggar eftir þær endurbætur sem gerðar hafa verið. Ky bætti því við að vandlega yrði fylgst með þotunum enn um sinn. 

MAX þotur voru kyrrsettar í mars 2019 eftir tvö flugslys þar sem 346 manns létust.

Icelandair er með sex Boeing MAX þotur í sínum flota og ætlunin er að hefja endurþjálfun flugmanna félagsins á þessar þotur fljótlega.