Keflavíkurflugvöllur niður í níunda sætið

Fækkun farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrra var meiri en í helstu flugstöðvum frændþjóðanna.

Á Keflavíkurflugvelli er ekkert innanlandsflug í boði öfugt við það sem tíðkast á alþjóðaflugvöllum út í heimi. MYND: ISAVIA

Keflavíkurflugvöllur hefur farið hratt upp listann yfir fjölförnustu flugvelli Norðurlanda. Árið 2014 skaust sá íslenski fram úr Billund á Jótlandi og Bromma í Stokkhólmi og varð svo stærri en norsku flughafnirnar í Þrándheimi og Stavanger ári síðar. Síðan fór Keflavíkurflugvöllur upp fyrir Flesland í Bergen og Landvetter í Gautaborg og komst upp í fimmta sætið á topplistanum árið 2016.

Þegar nýliðið ár er gert upp kemur í ljósi að Keflavíkurflugvöllur hefur fallið niður í níunda sætið. Og þar var samdrátturinn hlutfallslega meiri en á öðrum norrænum flugvöllum eða 81 prósent.

Skýringin liggur meðal annars í því að umsvifin á Keflavíkurflugvelli takmarkast við alþjóðaflug. Flugferðir innanlands eru hins vegar stór hluti af umsvifunum á flugvöllum frændþjóðanna eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Og í heimsfaraldrinum hefur samdrátturinn í innanlandsfluginu verið nokkru minni en í millilandaflugi. Þar með hækkaði vægi innanlandsfarþega í fyrra.

Flugvöllurinn við Kastrup í Kaupmannahöfn hefur lengi verið sá stærsti á Norðurlöndunum en á síðasta ári fóru fleiri um flugstöðina í Ósló. Þar er vægi innanlandsflugsins líka miklu hærra.