Langflestar ferðir til Kaupmannahafnar og London

Dagskrá Icelandair í janúar og febrúar gerir ráð fyrir daglegum ferðum til Kaupmannahafnar. Mynd: Kaupmannahafnarflugvöllur / CPH.dk

Þotur Icelandair eiga fljúga að jafnaði þrisvar sinnum á dag til útlanda í janúar og febrúar. Og í sex af hverjum tíu tilvikum verður stefnan sett á flugvellina við Kastrup og Heathrow. Ferðir til tíu annarra borga standa svo undir afganginum samkvæmt talningu Túrista.

Þar á meðal eru ferðir til Boston en hið opinbera styður fjárhagslega við flug Icelandair til bandarísku borgarinnar.

Hvort Icelandair nái svo að halda úti tíðum ferðum til höfuðborga Danmerkur og Bretlands á svo eftir að koma á daginn. Í báðum löndum er tíðni kórónaveirusmiti há og í áramótaávarpi sínu boðaði forsætisráðherra Dana áframhaldandi aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar. Ástandið í Bretlandi er ennþá verra enda mega Bretar ekki fara út úr húsi næstu vikurnar að nauðsynjalausu.

Í sumar gerir Icelandair ráð fyrir allt að fjórum flugum á dag til Kaupmannahafnar og þremur til London.