Nú væru tugþúsundir Breta á leið til landsins

Á þessum tíma árs hafa Bretar verið áberandi í hópi ferðamanna hér á landi. Í ljósi aðstæðna er ekki von á mörgum Bretum hingað til lands næstu vikur.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Nærri 86 þúsund breskir ferðamenn komu hingað til lands fyrstu tvo mánuðina 2017. Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Bretar hafi fjölmennt í vetrarferðir til Íslands síðustu ár og sérstaklega í ársbyrjun. Í janúar og febrúar hefur áætlunarferðunum því fjölgað milli Íslands og Bretlands og breskar ferðaskrifstofur eins og Tui, Jet2Holidays og Super Break boðið upp á eigið leiguflug hingað frá fjölda breskra borga.

Fyrstu tvo mánuðina í fyrra komu hingað 71 þúsund breskir ferðamenn eða rúmlega fjórðungur af öllum þeim túristum sem lögðu leið sína til Íslands. Vægi bresku ferðamannanna var ennþá hærra fyrir fimm árum síðan eða fjörutíu prósent eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Eins og gefur að skilja er ekki hægt að reikna með straumi ferðamanna frá Bretlandi nú í ársbyrjun enda settu bresk stjórnvöld á einskonar útgöngubann þar í landi í gær.