Nú verða flugfarþegar í Hollandi einnig að vera með vottorð

Farþegar frá allri Evrópu nema Íslandi þurf að sýna fram á neikvæðar niðurstöður í nýju Covid-19 prófi við komuna til Hollands.

Farþegar sem millilenda aðeins á Schiphol í Amsterdam eru ekki undanþegnir kröfunni um neikvætt Covid-19 próf. MYND: SCHIPHOL

Frá og með deginum í dag þurfa allir þeir sem ferðast til Hollands að framvísa nýjum og neikvæðum niðurstöðum úr Covid-19 prófi. Á líka við þá sem aðeins millilenda á Schiphol flugvelli samkvæmt heimasíðu flugvallarins.

Þar með bætist Holland í hóp með löndum eins og Bretlandi og Danmörku þar sem farið er fram á þess háttar vottorð. En þessa dagana eru Amsterdam, London og Kaupmannahöfn nærri einu borgirnar sem Icelandair flýgur til í Evrópu en farþegar frá Íslandi þurfa ekki að sýna vottorð við komuna til Hollands þar sem tíðni Covid-19 smita er lág hér á landi.

Vegna hinna nýju reglna í Hollandi þá hafa stjórnendur KLM, stærsta flugfélags landsins, ákveðið að leggja niður nær allt flug til annarra heimsálfa og einnig draga úr ferðum innan Evrópu.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu sagði að allir farþegar þyrfu að sýna vottorð í Hollandi en farþegar frá Íslandi eru undanþegnir.