Pólverjar líklegastir til að fara í ferðalag á næstunni

Um helmingur Evrópubúa stefnir á ferðalag næstu sex mánuði. MYND: JANIS OPPLIGER / UNSPLASH

Löngun Evrópubúa til að ferðast fer vaxandi samkvæmt mánaðarlegum mælingum Evrópska ferðamálaráðsins, ETC. Sérstaklega þegar kemur að ferðum á tímabilinu apríl til júní í ár. Þetta sýna niðurstöður nýjustu könnunar ETC sem birt var í vikunni en hún byggir á svörum sem var safnað 20. nóvember til 3. desember 2020.

Síðan þá hafa sóttvarnaraðgerðir verið hertar verulega í hinum ýmsu Evrópulöndum. En hvað sem líður þeirri neikvæðu þróun þá sýna niðurstöður könnunarinnar að 52 prósent svarenda hyggst ferðast innan Evrópu næstu sex mánuði. Það er aukning um fimm prósentustig frá könnun sem gerð var í október sl.

Pólverjar eru sú þjóð sem er líklegust til að vera á faraldsfæti því 74 prósent svarenda þar í landi segist ætla í ferðalag næsta hálfa árið. En líkt og fram kom í nýrri úttekt Túrista þá nam framboð Wizz Air á flugi til Íslands frá Póllandi um tíu þúsund sætum á mánuði fyrir heimsfaraldur. Flugfélagið situr eitt að markaðnum og Icelandair hefur t.a.m. alveg látið þennan stóra markað fyrir Íslandsflug vera.

Á eftir Pólverjum eru það Ítalir sem eru líklegir til að ferðast á næstu mánuðum (54%) og svo Frakkar (53%), Austurríkismenn (52%) og Spánverjar (51%).

Aldurshópurinn sem fer síður á ferðina á næstunni eru þeir sem eru 55 ára og eldri. Sjötti hver Evrópubúi í þeim hópi segir ferðalag mjög ólíklega á dagskrá.

Þess má geta að Ferðamálastofa Íslands er meðlimur í ETC og finna má nánari upplýsingar um kannanir ETC og fleiri gagnlegar upplýsingar á heimasíðu Ferðamálastofu.