Ríkið greiddi 350 milljónir króna fyrir flugferðir Icelandair í fyrra

Í upphafi heimsfaraldursins gerði ríkið samning við Icelandair um flug til London, Stokkhólms og Boston. Frá miðju síðasta ári hefur hið opinbera aðeins greitt fyrir ferðir til bandarísku borgarinnar. Nýr samningur um ferðir þangað út veturinn var nýverið undirritaður.

Heildarframlög til að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu vegna Covid-19 faraldursins námu tæplega 350 milljónum kr. árið 2020. Samningur, sem samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið gerði við Icelandair þann 17. maí, heimilaði að heildarkostnaður vegna hans gæti að hámarki numið 500 milljón kr.

Ekki reyndist nauðsynlegt að nýta alla þá fjárhæð en allar tekjur flugfélagsins af flugum lækkuðu greiðslur. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Túrista.

Fyrsti samningurinn var undirritaður í lok mars og gilti til 15. apríl. Um var að ræða flug til Boston annars vegar og London og Stokkhólms hins vegar. Annar samningur var gerður í beinu framhaldi um flug til sömu áfangastaða. Sá var í gildi til 5. maí en var framlengdur til 16. maí.

Þriðji samningurinn gilti frá 17. maí til 27. júní og tók áfram til áfangastaðanna þriggja. Hann var gerður að undangenginni auglýsingu eftir tilboðum á evrópska útboðsvefnum TED. Icelandair var eina flugfélagið sem gerði tilboð. 

Í þeim samningi var kveðið á um að hægt yrði að framlengja hann til eins eða fleiri af áfangastöðunum. Endurnýjunarákvæðið var nýtt frá og með 27. júní en aðeins vegna flugs til Boston. Frá þeim tíma hafa samningar eingöngu gilt um lágmarksflug til Boston. Heildarupphæð þeirra samninga nemur nærri 107 milljónum króna.

Þá gerði ráðuneytið viðaukasamning við Icelandair vegna flugs til Alicante í apríl að undirlagi utanríkisráðuneytisins. Sá samningur kostaði hið opinbera nærri 1,4 milljónir króna.

„Markmið samninganna hefur verið að tryggja mikilvæga farþega- og fraktflutninga til og frá landinu. Í upphafi var það ennfremur gert til að tryggja að íslenskir ríkisborgarar, sem staddir voru erlendis, gætu fundið sér leið heim í upphafi faraldursins,“ segir að lokum í svari ráðuneytisins.