Þau tíu Evrópulönd sem Evrópubúar eru líklegastir til að ferðast til

Flestir Evrópubúar horfa til ferðalaga suður á bóginn í sumar.

Mynd: ETC

Frakkland hefur lengi verið það land sem hefur laðað til sín flesta erlenda ferðamenn. Spánn er aftur á móti það ríki Evrópu sem íbúar álfunnar eru líklegastir til að heimsækja næst samkvæmt miðurstöðum nýrrar könnunar Evrópska ferðamálaráðsins.

Þar segir að tíundi hver Evrópubúi segist setja stefnuna á Spán í næstu utanlandsferð. Þar á eftir kemur Ítalía og svo Frakkland og Grikkland eins og sjá má myndinni hér að ofan.

Hlutfall þeirra sem nefnir Ísland sem mögulegan áfangastað er á bilinu 1 til 2 prósent en fjöldi landa mælist með svo lágt hlutfall. Í því samhengi má hafa í huga að vægi ferðamanna frá öðrum heimsálfum er mjög hátt hér á landi, sérstaklega þegar horft er til bandarískra ferðamanna.

Líkt og Túristi fjallaði um í gær eru vísbendingar um að Norwegian muni ekki taka upp tíðar ferðir milli Íslands og Spánar á næstunni.