Tímasetning á flutningi MAX þotanna ákveðin þegar kyrrsetningu verður aflétt

Boeing MAX þotur Icelandair. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Boeing MAX þotur fá heimild á ný til að fljúga innan Evrópska efnahagssvæðisins í næstu viku. Þetta kom fram í máli yfirmanns Flugöryggisstofnunnar Evrópusambandsins, EASA, á fundi með blaðamönnum fyrr í dag. Með þessari ákvörðun lýkur 22 mánaða flugbanni MAX þotanna í Evrópu en það var sett í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns misstu lífið.

Þær sex MAX þotur sem Icelandair hafði fengið afhentar fyrir kyrrsetningu þotanna voru sendar í geymslu til Suður-Evrópu á sínum tíma. Aðspurð um hvenær þær verði sóttar þangað þá segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að það liggi ekki fyrir nákvæmlega en skýrist um leið og EASA gefur út samþykki fyrir vélunum.

Icelandair hefur skuldbundið sig til að kaupa sex Boeing MAX þotur í viðbót og verða þrjár þeirra tilbúnar til afhendingar í sumar. Í ár gera stjórnendur Icelandair svo ráð fyrir að í flota félagsins verði samtals 23 þotur. Tíu Boeing 757 flugvélar, fjórar Boeing 767 og þessar níu MAX þotur.