Vilja í lengri sólarlandaferðir

Costa del Sol er einn af þeim áfangastöðum sem Vita býður uppá í sumar. Mynd: Vita

„Við höfum fengið mjög sterk viðbrögð á markaðinum síðustu daga og vikur og mjög mikla traffík á heimasíðuna þar sem fólk er að skoða sólarferðir í sumar,“ svarar Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vita, spurður um hvort pöntunum fari nú fjölgandi.

Þráinn segir fólk greinilega orðið spennt að komast út í sól og hita og bóki nú lengri ferðir en áður.

Vita er hluti af Icelandair Group hefur viðskiptavinum ferðaskrifstofunnar ávallt staðið til boða að nýta vildarpunkta Icelandair uppí hluta af fargjaldinu. En þó í mesta lagi fimmtán þúsund punkta. Núna fer hámarkið upp í hundrað þúsund punkta á farþega.

Þráinn segist bjartsýnn á að sú nýbreytni fái mjög góðar viðtökur þar sem viðskiptavinir Vita eigi í dag töluvert af vildarpunktum. Hann ítrekar að allar bókanir sem gerður eru fyrir 1. mars falli undir svokallaða Vita vernd og farþeginn fær því fulla endurgreiðslu, allt að sex vikum fyrir brottför, vilji hann hætta við ferðalagið.

„Að sjálfsögðu endurgreiðum við strax allar ferðir sem við fellum niður eins og við höfum gert allan þann tíma sem þetta Covid ástand hefur varað,“ bætir Þráinn við.