28 prósent farþega í Leifstöð með pólskan passa

Það eru sem fyrr fáir sem fljúga til og frá landinu nú þegar ferðatakmarkanir eru miklar um heim allan. Mynd: Isavia

Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru 4.362 í nýliðnum janúarmánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Samdrátturinn nemur 96,4 prósentum í samanburði við janúar 2020 þegar brottfarir voru tæplega 121 þúsund talsins.

Langflestir þeirra erlendu ríkisborgara sem flugu frá landinu í síðasta mánuði voru pólskir eða 28 prósent af heildinni. Það jafngildir 1.223 farþegum. Þar á eftir komu Þjóðverjar en 406 farþegar með þýskt vegabréf flugu héðan í janúar. 

Brottfarir Íslendinga í janúar voru um sex þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær um 38 þúsund. Fækkunin nemur 84 prósentum milli ára. Gera má ráð fyrir að stór hluti Íslendinga sem flaug frá landinu í janúar hafi verið fólk sem býr í útlöndum en hefur verið hér á landi yfir hátíðarnar.