Ætla ekki að taka MAX þoturnar í gagnið á ný

Norwegian hefur langa reynslu af Boeing 737 NG þotum og þær verða áfram í notkun hjá félaginu. Aftur á móti vilja stjórnendur þess losna undan samningi um kaupa á Boeing 737 MAX þotum. Mynd: Norwegian

Norwegian flugfélagið tapaði 22 milljörðum norskra króna í fyrra sem jafngildir um 326 milljörðum íslenskra króna. Tvo þriðju hluta tapsins má rekja til afskrifta á flugflota félagsins. Þetta kemur fram í uppgjöri sem félagið birti í morgun.

Norwegian er ennþá í greiðslustöðvun, bæði á Írlandi og í Noregi, en stjórnendur félagsins vinna að því hörðum höndum að losna við stóran hluta af flugflotanum.

Í vikunni náðist samkomulag við Airbus um að Norwegian félli frá kaupum á 88 Airbus A320neo þotum en hins vegar gengur lítið í viðræðunum við Boeing. Norwegian pantaði eitt hundrað eintök af Boeing 737 MAX þotum árið 2012 og hafði tekið átján þeirra í gagnið áður en þær voru kyrrsettar í mars 2019.

Norwegian stefndi svo Boeing vegna gallanna í MAX þotunum í fyrra og vill komast undan kaupsamningi sínum við flugvélaframleiðandann. Á fundi með blaðamönnum í morgun sagði svo Geir Karlsen, fjármálastjóri Norwegian, að félagið ætlaði sér ekki að fljúga MAX þotum á ný, ekki einu sinni þessum átján sem félagið er með í dag.

Í staðinn verði eldri gerðir af Boeing 737 þotum notaðar áfram til að fljúga farþegum Norwegian. Samtals er gert ráð fyrir fimmtíu þess háttar flugvélum flotanum auk þriggja sem notaðar verða til vara samkvæmt frétt E24.

Stjórnendur Norwegian hafa áður gefið út að félagið ætla að hætta áætlunarflugi milli Norður-Ameríkug og Evrópu og þar með séu ekki lengur nota fyrir Boeing Dreamliner þotur félagsins.