Áfram lækkar spá Seðlabankans um fjölda erlendra ferðamanna

Mynd: Nicolas J Leclercq

„Ekki er gert ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi að neinu ráði fyrr en líða tekur á næsta sumar þegar ferðatakmarkanir milli Bandaríkjanna og Evrópu falla úr gildi og dregið verður úr sóttvarnaraðgerðum á landamærum,“ segir í nýjustu útgáfu Peningamála Seðlabankans.

Þar er því spáð að erlendir ferðamenn hér á landi í ár verði ríflega 700 þúsund. Sú tala er ögn lægri en sú sem birtist í Peningamálum í nóvember í fyrra. Þar var gert ráð fyrir 750 þúsund erlendum ferðamönnum árið 2021.

Í spá Seðlabankans frá því í ágúst í fyrra var aftur á móti reiknað með einni milljón ferðamanna í ár.