Boeing kallar líka eftir kyrrsetningu

Boeing 777-300 þota á vegum United Airlines. Nú hefur Boeing óskað eftir að þoturnar verði kyrrsettar. Mynd: United Airlines

Nauðlenda þurfti Boeing 777 þotu United Airlines í gær eftir að hluti af öðrum hreyfli flugvélarinnar losnaði og hrapaði til jarðar. Atvikið varð skömmu eftir flugtak í Denver og lenti vélin á flugvelli borgarinnar skömmu síðar án vandræða. Engin slys urðu á jörðu niðri vegna hreyflabrotanna þó þeim hafi rignt yfir íbúðabyggð.

Stuttu eftir atvikið kyrrsetti United allar sínar Boeing 777 þotur sem eru með hreyfla af sömu gerð og sú í Denver. Japönsk flugmálayfirvöld gerðu slíkt hið sama. Nú í morgunsárið mæltist flugvélaframleiðandinn sjálfur með kyrrsetningu og að hreyflar þotanna yrðu skoðaðir.

Samkvæmt tilkynningu Boeing nær kyrrsetningin til allra þeirra 118 Boeing 777 þota sem útbúnar eru hreyflum frá Pratt & Whitney. Þar af eru 69 í notkun í dag á vegum fjögurra flugfélaga en 59 þotur í geymslu vegna lítillar eftirspurnar eftir flugi sem rekja má til heimsfaraldursins.

Um er að ræða eldri gerðir af Boeing 777 þotum sem munu vera töluvert eyðslufrekari en þær sem eru með nýrri tegundir hreyfla.