Engar breytingar á Visit Iceland

Úr nýjustu herferð Inspired by Iceland sem Íslandsstofa hefur umsjón með. Mynd: Íslandsstofa

Heiti Íslandsstofu var breytt úr Promote Iceland í Business Iceland um síðustu mánaðamót. Í tilkynningu frá Íslandsstofu segir að breytingin sé fyrst og fremst gerð til þess að liðka fyrir störfum Íslandsstofu erlendis enda algengt að félög, sem sinna svipaðri starfsemi og Íslandsstofa, séu nefnd Business að viðbættu heiti heimalands, svo sem Business France, Business Sweden og Business Finland.

Á sama hátt notar földi landa Visit á undan landaheitinu til að merkja opinbera kynningu fyrir ferðaþjónustu. Það hefur Íslandsstofa einnig gert undir heitinu Visit Iceland.

Á því verður engin breyting að sögn Sveins Birkis Björnssonar hjá Íslandsstofu.

„Við erum Visit Iceland í öllu okkar starfi gagnvart erlendri ferðaþjónustu á sýningum og á vefnum Visiticeland.com til dæmis. Þannig hefur það verið á meðan við vorum kölluð Promote Iceland, og verður áfram eftir að við verðum kölluð Business Iceland,“ segir Sveinn Birkir.