Í upphafi heimsfaraldursins síðastliðið vor tóku flugfélög upp á því að hætta að selja miðjusætin um borð. Tilgangurinn var að auka bilið á milli farþega þó ekki dygði þetta til að halda tveggja metra fjarlægð. Svo kom sumarið með aukinni eftirspurn eftir flugi og um leið voru farþegar komnir í miðjusætin ný.
Þó ekki hjá bandaríska flugfélaginu Delta sem ennþá selur í mesta lagi tvo þriðju hluta sætanna um borð. Og stjórnendur flugfélagsins ætla að halda miðjusætunum auðum út apríl næstkomandi í það minnsta.
Þar með munu þeir sem nýta sér fyrstu ferðir Delta milli Íslands og New York í vor ekki þurfa að deila sætaröðinni með fleirum en einum öðrum farþega. Bandaríska flugfélagið áformar nefnilega að hefja Íslandsflug á ný í byrjun apríl. Hvort heimsfaraldurinn riðli þeim áætlunum á svo eftir að koma í ljós.