Flugrútan á ferðina á ný

Flugfarþegar geta nú að nýja fengið far með Flugrútunni frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgarsvæðisins. Mynd: Kynnisferðir

Nú er akstur Flugrútunnar hafin að nýju en þjónustan hefur legið niðri frá því um miðjan janúar. Ekki hefur áður verið gert eins langt hlé á sætaferðum Flugrútunnar frá Keflavíkurflugvelli en þær hafa verið á boðstólum frá árinu 1979.

Um ástæður þess að þráðurinn er nú tekinn upp að nýju þá segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, að undanfarna daga hafi verið umræða um mikilvægi þjónustunnar til að lágmarka hættuna á að smit berist inn í samfélagið.

„Við höfum því tekið ákvörðun um að hefja akstur Flugrútunnar á ný. Síðustu daga höfum við haft samráð við opinbera aðila til að útfæra þjónustuna með tilliti til sóttvarna og að þjónustan sé í samræmi við gildandi reglugerð. Einnig höfum við haft samráð við Isavia um að koma á framfæri upplýsingum til komufarþega um þá valkosti sem standi þeim til boða til að komast til Reykjavíkur. Við bindum því vonir við að komufarþegar nýti sér þjónustu okkar svo hægt verði að halda henni gangandi“, segir Björn í tilkynningu frá Kynnisferðum.

Flugrútan mun keyra í tengslum við allar lendingar farþegaþota á Keflavíkurflugvelli og á leiðinni til höfuðborgarinnar verður við Fjörukrána í Hafnarfirði, við Aktu Taktu í Garðabæ, Hamraborg í Kópavogi og á BSÍ. 

Tekið er fram í tilkynningu að á BSÍ er fjöldi gjaldfrjálsra bílastæða og hægt er að skilja eftir bíllykla í sérstökum skápum gegn vægu gjaldi.