Fyrsta farþegaflug MAX þotu í Evrópu

TUI varð í dag fyrsti flugrekandinn í Evrópu til að taka Boeing MAX í gagnið á ný með því að fljúga farþegum sínum frá Brussel til Malaga í hinum umtöluðu þotum.

Í Bandaríkjunum hafa MAX flugvélar verið nýttar í farþegaflug á vegum American Airlines frá því fyrir áramót en það var fyrst í janúar síðastliðnum sem kyrrsetningu þotanna var aflétt í Evrópu.

Í síðustu viku flaug Icelandair tveimur af Boeing MAX þotum sínum til Keflavíkurflugvallar en þær höfðu verið geymdar á Spáni. Þær tvær flugvélar sem sóttar voru eru tvö nýjustu eintökin í MAX flota Icelandair. Hann telur nú sex flugvélar en brátt bætast við þrjár í viðbót.

Hér fyrir neðan má sjá myndband á vegum TUI þar sem farið er yfir hvaða breytingar hafa verið gerðar á stýribúnaði Boeing MAX þotanna en tvö flugslys, þar sem samtals 346 manns misstu lífið, eru rakin til þessa búnaðar.