Hæstiréttur ætlar að taka fyrir mál Kynnisferða gegn Isavia

Flugrútan er í eigu Kynnisferða og hefur lengi boðið upp á sætaferðir milli Keflavíkurflugvallar og BSÍ. Síðustu ár í samkeppni við Airport Direct og Gray Line. Mynd: Kynnisferðir

Forráðamenn Kynnisferða vilja sönnur fyrir því að keppinautar fyrirtækisins, Gray Line og Airport Direct, hafi greitt gjöld vegna afnota af svokölluðum fjær- og nærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Landréttur féllst ekki á þessa kröfu í úrskurði sínum í desember sl. en nú hefur Hæstiréttur ákveðið að taka málið upp.

Kynnisferðir fara fram á að fá aðgang að öllum reikningum, greiðslukvittunum og innheimtubréfum til staðfestingar á því Gray Line og Hópbílar, sem reka Airport Direct, hafi staðið skil gagnvart Isavia.

Forsaga málsins er sú að sumarið 2017 bauð Isavia út aðstöðu fyrir tvö fyrirtæki til að bjóða upp á sætaferðir milli Leifsstöðvar og höfuðborgarsvæðisins. Niðurstaða útboðsins var sú að Kynnisferðir, sem reka Flugrútuna, fengu einkarétt á stæðunum ásamt Airport Direct.

Sá samningur tók gildi 1. mars 2018 og um leið skuldbundu fyrirtækin tvö sig til að greiða lágmarksgjald fyrir aðstöðuna upp á samtals um þrjú hundruð milljónir króna á ári.

Gray Line sem hefur haldið úti sætaferðum frá Leifsstöð um árabil þurfti eftir útboðið að færa sína starfsemi yfir á stæði sem eru fjær flugstöðinni. Þar hóf Isavia um leið að rukka bílastæðagjöld sem staðið hefur styr um alla götur síðan og hefur Samkeppniseftirlitið sett út á gjaldtökuna.

Eins og frægt var þá komst Wow air hjá því að greiða farþega- og lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli um langt skeið. Skuld flugfélagsins nam rúmum tveimur milljörðum króna þegar félagið fór í þrot í mars 2019.