Hótelin verða ekki lengur kennd við Icelandair

Sjö þeirra hótela sem heyra undir Icelandair hótelin bera nafn flugfélagsins. Nú hefur Icelandair samsteypan hins vegar selt allan sinn hlut í keðjunni.

Hilton Canopy hótelið í miðborg Reykjavíkur tilheyrir Icelandair hótelunum. Mynd: Icelandair hótelin.

Icelandair Group hefur selt fjórðungshlut sinn í Icelandair hótelunum til Berjaya í Malasíu. Sú samsteypa verður um leið eini eigandi þessa næst stærsta hótelfyrirtækis landsins. Í kjölfar kaupanna mun hótelfélagið hefja vinnu við breytingu á nafni og vörumerki hótelanna og hætta notkun Icelandair vörumerkisins þegar fram líða stundir samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Berjaya keypti 75 prósent hlut í Icelandair hótelunum fyrir ári síðan og borgaði fyrir hann 6,5 milljarða króna eða 45,3 milljónir bandaríkjadala miðað við þáverandi gengi. Söluvirði fjórðungshlutarins í dag nemur hins vegar aðeins 440 milljónum króna eða 3,4 milljónum dollurum.

Í heildina borgaði Berjaya þá nærri sjö milljarða króna fyrir hótelkeðjuna í heild sinni. Þegar fyrst var kynnt um söluna á 75 prósent hlutnum til Berjaya í árslok 2019 voru þau viðskipti metin á tíu milljarða króna.

„Við höfum nýtt tímann vel undanfarið í endurskipulagningu okkar reksturs sem og til undirbúnings á þeirri vegferð sem lá fyrir að væri framundan. Við hlökkum til aukins samstarfs við nýja eigendur í Malasíu, og erum þakklát öllu því góða fólki sem við höfum unnið með að uppbyggingu ferðaþjónustu hjá Icelandair Group til fjölda ára. Við ætlum áfram að vera leiðandi í hótelrekstri á Íslandi, og það verður spennandi að kynna þær nýjungar sem endurmörkun rekstrarins mun innibera,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, í tilkynningu.