Íslandshótel eru menntafyrirtæki atvinnulífsins árið 2021

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, Stefán Karl Snorrason, starfsþróunar- og gæðastjóri Íslandshótela, Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs Íslandshótela og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Mynd: SAF

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag þeim fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum og var stærsta hótelkeðja landsins, Íslandshótel, valið Menntafyrirtæki ársins.

Íslandshótel rekur samtals sautján hótel með tæplega átján hundruð herbergi.

Í frétt á vef Samtaka ferðaþjónustunnar segir að uppbygging fyrirtækisins endurspegli mikinn vöxt ferðaþjónustunnar en um leið þær fjölmörgu áskoranir sem slíkum vexti fylgja í mannauðsmálum.

„Félagið hefur á markvissan hátt tengt saman uppbyggingu á fræðslu og þjálfun starfsfólksins við heildarstefnumótun sína, sem tryggir að allt starfsfólk þess fær staðlaða, markvissa og stefnumiðaða fræðslu,“ segir í frétt SAF.