Mæla með óbreyttri stjórn þrátt fyrir breyttan og breiðari hluthafahóp

Þau fimm sem hafa myndað stjórn Icelandair undanfarið ár munu fá endurnýjað umboð á næsta aðalfundi ef tillögur tilnefningarnefndar verða samþykktar.

Í tilnefninganefnd Icelandair Group sitja Helga Árnadóttir, Hjörleigur Pálsson og Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður. MYND: ICELANDAIR / SIGURJÓN RAGNAR

Aðalfundur Icelandair Group fer fram þann 12. mars og leggur tilnefninganefnd félagsins til að umboð núverandi stjórnar verði endurnýjað. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Núverandi stjórn Icelandair var kjörin í byrjun mars í fyrra og þá voru stærstu eigendurnir Lífeyrissjóður verzlunarmanna og bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital. Hvorugur þessara tók þátt í hlutafjárútboði þessa stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins síðastliðið haust.

Stærstu hluthafar Icelandair í dag eru því lífeyrissjóðirnir Gildi, Brú og LSR auk sjóða í vörslu Stefnis. Auk þess hefur fjöldi hluthafa fjórfaldast frá því í fyrra og eru þeir nú hátt í fjórtán þúsund.

Þau sem skipa stjórn Icelandair Group í dag og munu gera það áfram eftir næsta aðalfund, ef fallist verður á tillögu tilnefningarnefndar, eru Svafa Grönfeldt, Guðmundur Hafsteinsson, Nina Jonsson, John F. Thomas og Úlfar Steindórsson.

Úlfar hefur verið stjórnarformaður Icelandair frá árinu 2017 þegar hann leysti af hólmi Sigurð Helgason, fyrrum forstjóra flugfélagsins.