Nýr keppinautur Icelandair að verða klár í slaginn

Fyrir ári síðan endurnýjaði Icelandair samning við bandaríska flugfélagið JetBlue. Sá felur í sér að bæði flugfélögin geta selt og gefið út flugmiða hjá hvort öðru.

Þegar samningurinn var undirritaður þá lá það fyrir að JetBlue ætlaði sér að hefja flug til London á þessu ári frá Boston eða New York. Þessar þrjár borgir eru einmitt allar mikilvægur hluti af leiðakerfi Icelandair.

JetBlue er oft flokkað sem flugfélag sem er mitt á milli lágfargjaldafélaga og þessa hefðbundu, líkt og Icelandair. Félögin tvö róa því á sömu mið nema stjórnendur JetBlue sjá tækifæri í að fá fleiri viðskiptaferðalanga um borð hjá sér þegar flogið er yfir til Norður-Atlantshafið.

Það ætla þeir meðal annars að gera með tuttugu og fjórum einkaklefum, á sérstöku viðskiptafarrými, sem komið verður fyrir í splunkunýju Airbus A321LR þotunum sem félagið ætlar að fljúga yfir London.

Hulunni var svipt af þessu nýja viðskiptafarrými á dag með myndbandinu hér að neðan.

Dagsetning á jómfrúarferð JetBlue til London hefur ekki verið gefin upp en stjórnendur félagsins segjast ætla að leggja í hann einhvern tíma á þriðja fjórðungi þessa árs.