Óttast að sjóðir Norwegian tæmist fyrir vorið

Ennþá gerir Norwegian ráð fyrir áætlunarflugi til Íslands frá þremur evrópskum borgum frá og með lokum mars.

norwegian vetur
Mynd: Norwegian

Flugfloti Norwegian heyrir að mestu undir írsk dótturfélög en þau hafa nú verið í greiðslustöðvun í nærri þrjá mánuði. Af þeim sökum mættu lögmenn norska flugfélagsins og kröfuhafanna fyrir dómara í Dublin í morgun.

Þar var tekin fyrir þau áform stjórnenda Norwegian að losna undan leigusamningum á áttatíu til níutíu flugvélum. Þar af þeim þrjátíu og sex Boeing Dreamliner þotum sem Norwegian hefur nýtt í áætlunarflug til Norður-Ameríku.

Lögmenn Norwegian lýstu því yfir á fundinum í morgun að það væri aðkallandi að klára samninga við leigusala og fjármögnunarfyrirtæki í þessari viku. Greiðslustöðvunarferlið mætti ekki dragast fram á vorið því þá væri hætta á að sjóðir Norwegian hefðu tæmst.

Fulltrúar kröfuhafa vildu þó ekki samþykkja þessa flýtimeðferð og báðu um frest fram í næstu viku til að kynna sér betur tillögur Norwegian.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver framvinda mála verður.

Þess má geta að samkvæmt heimasíðu Norwegian gerir flugfélagið ráð fyrir að hefja flug til Íslands frá Ósló, Alicante og Barcelona í lok mars. Líkt og Túristi hefur áður fjallað um er ólíklegt að af Spánarfluginu verði.