Segir óljóst hvort Bretar geti ferðast innanlands í sumar eða til útlanda

Þrátt fyrir að Bretar séu komnir lengst Evrópuþjóða í bólusetningum þá vilja ráðamenn þar ekkert segja til um hvenær fólk getur ferðast innanlands á ný.

Frá Heathrow flugvelli í London. Mynd: Heathrow Airport

„Ég get ekki svarað því ákveðið hvort við komumst í ferðalag á þessu ári, hvorki hér heima eða til útlanda,“ sagði Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, í viðtali við Sky News fyrr í dag.

Hann bætti því við að eins og staðan er í dag geti enginn sagt til um hvernig heimsfaraldurinn þróast á næstunni. Vísaði ráðherra meðal annars til þeirra nýju afbrigða af COVID-19 sem komið hafa upp að undanförnu.

Samgönguráðherrann var líka í viðtali á BBC nú í morgun og þar beindi hann þeim tilmælum til Breta að bóka engar ferðir að svo stöddu. Það ætti bæði við um ferðalög innanlands og utan.

Breskir ráðamenn hafa verið harðlega gagnrýndir síðustu daga fyrir hertari aðgerðir við landamærin. Þannig geta íbúar Bretlands, sem segja ósatt um ferðir sínar til útlanda, átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisvist. Engar líkur eru þó taldar á því að nokkur fengi svo harðan dóm en Shapps samgönguráðherra segir heimildina þó vera til marks um alvarleika málsins.

Þeir Bretar sem snúa heim þessa dagana frá svokölluðum rauðum löndum, þar sem tíðni COVID-19 smita er há, þurfa í tíu daga sóttkví á vegum stjórnvalda. Farþeginn verður sjálfur að greiða allt að 1750 pund fyrir vistina. Það jafngildir um 311 þúsund íslenskum krónum.

Ísland er hins vegar skilgreint sem grænt land í litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins. Og Icelandair flýgur þessa dagana tvær ferðir í viku til Heathrow flugvallar í London.