Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, ætlar að bjóða sig fram til stjórnar Icelandair Group sem kjörin verður á aðalfundi félagsins þann 12. mars næstkomandi. Þórunn er þar með sjöundi frambjóðandinn en áður hefur tilnefninganefnd flugfélagsins lagt til að núverandi fimm manna stjórn verði endurkjörin. Steinn Logi Björnsson, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Icelandair, er einnig í framboði.
„Eigendahópur Icelandair hefur gjörbreyst eftir hlutafjárútboðið og ég geri ráð fyrir að allir þessir nýju eigendur vilji fá reynslumikið fólk í viðspyrnuna og þess vegna býð ég fram,” segir Þórunn aðspurð um framboð sitt. Hún ætlar að óska eftir fundum með stærstu hluthöfum félagsins fyrir aðalfundinn og um leið kynna sig fyrir almennum hluthöfum.
Þórunn segist bera sterkar taugar til Icelandair og telji mikilvægt að félagið nái í eins mikla þekkingu og reynslu og hægt er fyrir komandi viðspyrnu. „Öll flugfélög mun berjast um athyglina og þá er eins gott að í brúnni sé fólk sem þekki vel til helstu markaða félagsins.”
Þórunn vísar þar til rúmlega þrjátíu ára reynslu sinnar af störfum í ferðageiranum og þar af í aldarfjórðung hjá Icelandair. Hún var um tíma stöðvarstjóri Icelandair á Kastrup í Kaupmannahöfn, hótelstjóri Hótel Loftleiða í þrjú ár og stýrði síðar sölumálum Hertz bílaleigunnar um sex ára skeið sem þá var í eigu Icelandair.
Frá árinu 2015 hefur Þórunn verið forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands en áður var hún markaðsstjóri Iceland Express, forstjóri ferðaskrifstofunnar Destination Europe í Bandaríkjunum í sex ár og eigandi Avis bílaleigunnar á Íslandi.
Skráðu þig inn til að lesa
Þessi grein er aðeins aðgengileg áskrifendum. Smelltu hér til að kanna áskriftarleiðir.