Skásti mánuðurinn í innanlandsfluginu síðan heimsfaraldurinn hófst

flugvel innanlands isavia
Það voru rúmlega 27 þúsund farþegar sem áttu leið um innanlandsflugvelli landsins í janúar. Mynd: Isavia

Covid-19 hefur skiljanlega komið verr niður á millilandaflugi en flugi innanlands. Allt síðast ár fækkaði farþegum á Keflavíkurflugvelli til að mynda um 81 prósent en mun minna á Reykjavíkurflugvelli eða um 53 prósent.

Í nýliðnum janúar voru lítil batamerki í umferðinni um Keflavíkurflugvöll því þar fækkaði farþegum um 94 prósent. Hins vegar nam samdrátturinn á öðrum flugvöllum landsins rétt um þriðjungi frá janúar í fyrra. Það jafngildir um fjórtán þúsund færri farþegum.

Í farþegum talið er þetta því minni niðursveifla en sést hefur í innanlandsfluginu síðan heimsfaraldurinn hófst fyrir alvöru eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan.