Stjórnarmaður Icelandair fékk stuttan tíma í Ástralíu

Hinn bandaríski John Thomas er einn þeirra sjö sem er í framboði til stjórnar Icelandair samsteypunnar. Hann telur að stjórnarmenn ættu að fá umboð í lengri tíma en eitt ár í einu. Það er þó ekki vaninn hjá hinum norrænu flugfélögunum.

Bandaríkjamaðurinn John Thomas tók sæti í stjórn Icelandair Group á aðalfundi félagsins í mars í fyrra líkt og tilnefningarnefnd fyrirtækisins hafði lagt til. Nefndin mælir með að umboð núverandi stjórnar verði endurnýjað á næsta aðalfundi sem fram fer eftir tvær vikur. Nú eru hins vegar komin fram tvö mótframboð, frá Steini Loga Björnssyni og Þórunni Reynisdóttur.

Þar með er Thomas ekki öruggur með endurkjör og í viðtali við Viðskiptablaðið í gær lýsir hann furðu sinni á þeim tímamörkum sem gilda um stjórnarsetuna. „Það er örlítið sérstakt að vera aðeins kjörinn til eins árs í senn,“ segir Thomas í viðtalinu og bendir á að í flestum stjórnum erlendis sé skipunin til fimm ára í senn.

Stjórnarmenn SAS og Finnair eru hins vegar aðeins kjörnir í eitt ár í einu samkvæmt upplýsingum frá flugfélögunum tveimur.

Og það má rifja upp að fyrrnefndur Thomas stoppaði ekki lengi hjá flugfélaginu Virgin Australia á sínum tíma. Þar tók hann við sem aðstoðarforstjóri í september 2016 en lét af störfum tíu mánuðum síðar líkt og Túristi hefur áður fjallað um.

Í frétt Sydney Morning Herald, í júní 2017, sagði að stjórn Virgin flugfélagsins hafi sannfærst um að Thomas væri ekki rétti maðurinn í starfið. Í fréttinni er bent á að Bandaríkjamaðurinn hafi mikla reynslu af ráðgjafastörfum í fluggeiranum en litla sem stjórnandi.