Tapið hjá SAS tvöfaldaðist

Það er von á þotum SAS til Keflavíkurflugvallar frá öllum þremur skandinavísku höfuðborgunum í sumar. MYND: SAS

Reikningsár flugfélagsins SAS nær frá nóvember og fram í október árið eftir og nú liggur fyrir uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði tímabilsins. Niðurstaðan var tap upp á 1,9 milljarð sænskra króna sem jafngildir 29 milljörðum íslenskra króna.

Tapið á þessum fyrsta fjórðungi var nærri tvöfalt hærra en á sama tímabili árið áður. Frá þeim tíma hefur starfsmönnum SAS hins vegar fækkað úr ellefu þúsund í fimm þúsund og kostnaðurinn lækkað um sextíu af hundraði. Tekjur félagsins drógust saman um 77 prósent.

SAS gerir ráð fyrir tíðum ferðum til Íslands frá Ósló og Kaupmannahöfn í ár og yfir hásumarið munu þotur félagsins líka fljúga hingað frá Stokkhólmi.

Sumaráætlun SAS gæti þó tekið breytingum þegar á líður allt eftir því hvernig heimfaraldurinn þróast. Þetta hefur komið fram í viðtölum við stjórnendur SAS í skandinavísku viðskiptapressunni í dag.

Áform félagsins byggja núna á því að eftirspurn verði á bilinu 50 til 60 prósent af því sem hún hefði verið í eðlilegu árferði.