Tapið í fyrra jafngilti stærstum hluta af hagnaði bestu áranna

Farþegum Icelandair fækkaði um 83 prósent í fyrra og framboðið minnkaði álíka mikið vegna COVID-19.

Icelandair tapaði í heildina 51 milljarði króna í fyrra samkvæmt uppgjöri sem birt var fyrr í kvöld. Félagið gerir upp í bandarískum dollurum og nam tapið í þeim gjaldmiðli 376,2 milljónum. Til samanburðar skilaði reksturinn samtals hagnaði upp á 448 milljónir dollara árin 2011 til 2017.

Tapið á síðasta ári nemur því 84 prósentum af hagnaðinum á þeim árum síðasta áratugar sem rekstur Icelandair var réttum megin við núllið. Í hittifyrra og árið 2018 tapaði félagið hins vegar samtals ca. 110 milljónum dollara.

Heimsfaraldurinn hafði skiljanlega verulega áhrif á starfsemi Icelandair og dróst sætaframboðið saman um 81 prósent á árinu 2020 og farþegafjöldinn fór niður um 83 prósent.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að eftirspurn á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi verið lítil vegna stöðu heimsfaraldursins á lykilmörkuðum félagsins. „Við erum hins vegar hóflega bjartsýn að geta aukið flug frá og með öðrum ársfjórðungi þessa árs,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.