Þurfa að undirbjóða önnur flugfélög

Rekstur Icelandair var síðast réttum megin við núllið árið 2017. Meginskýringin liggur í því að félagið er ekki samkeppnishæft vegna hás kostnaðar segir fyrrum forstöðumaður hjá flugfélaginu.

„Við erum einfaldlega verðtakar á þessum markaði eins og staðan er núna, þar sem við erum svo lítil í alþjóðasamhengi, og við þurfum að fylgja öðrum og það er mjög þungbært fyrir félag með okkar strúktúr,“ útskýrði Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair Group, í viðtali við Viðskiptablaðið haustið 2019.

Á þessa viðkvæmu stöðu Icelandair, sérstaklega í keppni um farþega á leið yfir Norður-Atlantshafið, bendir einnig Egill Almar Ágústsson, fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfis Icelandair, á í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Þar fullyrðir hann að flestir farþegar, á leið milli Norður-Ameríku og Evrópu, velji Icelandair vegna þess að fargjaldið er lægra en býðst í beinu flugi.

„Icelandair hefur litla stjórn á því hvaða verði það selur miða til tengifarþega því það þarf að undirbjóða flesta aðra á markaðinum,“ segir Egill Almar.

Hann rekur einnig í viðtalinu að stjórnendur Icelandair hafi síðustu ár gert áætlanir um að fargjöld ættu að hækka umfram það sem var að gerast hjá samkeppninni. Þær hafi þó ekki gengið eftir og þá hafi skuldinni verið skellt á endurskipulagningu sölumála félagsins, ódýr fargjöld keppinautanna og á viðbætur við leiðakerfið.

Egill Almar, sem fór fyrir leiðakerfi Icelandair hluta af þessu umrædda tímabili, bendir aftur á móti á að tekjurnar hafi staðið í stað en ekki lækkað. Það sama verði þó ekki sagt um kostnaðinn sem hafi hækkað um sautján af hundraði og nýafstaðin endurskipulagning rekstrarins skili ekki nægilega mikilli lækkun til að gera félaginu kleift að standa sig í samkeppninni næstu ár.