Til Tenerife allt árið og fleiri ferðir til Alicante og annarra áfangastaða

Heimsferðir ætla að bjóða upp á reglulegar ferðir til suðurhluta Evrópu í sumar og allan næsta vetur verður flogið til Tenerife.

Fyrsta ferð Heimsferða í vor verður til Krítar þann 21. maí. MYND: HEIMSFERÐIR

„Við gengum í morgun frá nýjum samningi við ítalska flugfélagið Neos sem við vorum í samstarfi við áður. Ætlunin er að hefja flug þann 21. maí og í framhaldinu vera með ferðir til nokkurra áfangastaða í suðurhluta Evrópu. Þannig verða í boði verða tvær brottfarir í viku til Tenerife, allt árið um kring. Til Alicante verður farið tvisvar í viku nú í sumar og fram á haust í það minnsta. Einnig verðum við með ferðir til Malaga, Almería, Krítar, Faro í Portúgal og til Tyrklands,“ útskýrir Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða.

Hann segir að samningurinn við Neos geri ferðaskrifstofunni líka kleift að vera með fjölda borgarferða á boðstólum í haust. Þar á meðal til Rómar, Lissabon, Porto, Lublijana og sérferða til Madeira og Sikileyjar.

Heimsferðir bjóða upp á pakkaferðir en einnig er hægt að kaupa staka flugmiða hjá ferðaskrifstofunni. En líkt og Túristi fjallaði um í morgun þá er útlit fyrir að framboð á flugi héðan til Spánar dragist þónokkuð saman frá því sem var fyrir heimsfaraldur. Þessi nýja viðbót frá Heimsferðum vegur þar upp á móti.

Þess má geta að í ársbyrjun var skrifað undir samruna Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Úrval-Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir tilheyra þeirri fyrrnefndu.