Vægi íslensku gestanna rauk upp þegar markaðurinn hrundi

reykjavik Tim Wright
Gistinóttum á hótelum fækkaði meira á höfuðborgarsvæðinu en út á landi. Mynd: Tim Wright / Unsplash

Í janúar og febrúar í fyrra stóðu Íslendingar undir rétt um tíundi hverri gistinótt sem bókuð var á íslenskum hótelum. Heimsfaraldurinn sem enn geysar setti svo allt úr skorðum í mars og ferðamennirnir hurfu af landinu. Í apríl og maí voru gistinætur útlendinga á íslenskum hótelum rétt um hundraðshluti af því sem hafði verið í febrúar.

Þá voru það heimamenn sjálfir sem bókuðu þær fáu gistingar sem seldust. Og síðastliðið sumar, þegar Evrópubúar gátu ferðast innan álfunnar, þá fjölgaði ferðamönnum hér á ný. Íslendingar sjálfir voru þó með meira en helming allra gistinótta í júlí og ágúst eins og sjá má á neðra línuritinu.

Í fyrra fækkaði gistinóttum á hótelum um 67 prósent og voru þær rétt um ein og hálf milljón samtals. Á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi nam samdrátturinn 67 til 71 prósenti en í öðrum landshlutum nam fækkunin um 50 til 54 prósentum.