Áfram tvær ferðir á dag

Flugumferðin til og frá landinu er ekki að aukast.

Mynd: Isavia

Fyrstu tvær vikurnar í mars voru farnar tuttugu og níu áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli. Að jafnaði var því aðeins flogið tvisvar á dag héðan til útlanda sem er jafn lítið og í febrúar.

Auk Icelandair þá fljúga líka Lufthansa og Wizz air til og frá Keflavíkurflugvelli þessa dagana. Þotur þýska félagsins koma frá Frankfurt en ferðir Wizz air takmarkast við tvær ferðir í viku frá Varsjá.

Icelandair flýgur sem fyrr til Amsterdam, London, Kaupmannahafnar og Boston en hefur nú einnig bætt við ferðum til Parísar, Frankfurt og Stokkhólms.

Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að flugi Icelandair til sænsku höfuðborgarinnar í gær hafi verið aflýst. Þær upplýsingar byggðu á heimasíðu Keflavíkurflugvallar en þar segir að fluginu til Stokkhólms hafi verið aflýst í gær. Hið rétta er að breiðþota Icelandair flaug í gærmorgun til Arlanda flugvallar við Stokkhólm. Þaðan til Kaupmannahafnar og svo til Keflavíkurflugvallar.