Átta frambjóðendur eftir

Mynd: Denver flugvöllur

Bandaríkjamaðurinn Marty St. George hefur dregið framboð sitt til stjórnar Icelandair tilbaka. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu frá Icelandair nú í kvöld.

Marty St. George hefur langa reynslu úr fluggeiranum sem stjórnandi og í viðtali við Túrista sl. helgi sagði hann að framboð sitt til stjórnar Icelandair væri að frumkvæði hóps hluthafa í flugfélaginu.

Nú í byrjun viku lá það fyrir kosið verður til stjórnar samkvæmt meirihlutakosningu þar sem ekki var nægjanlegur stuðningur meðal hluthafa við svokallaða margfeldiskosningu. Þar með geta hluthafar ekki sett öll sín atkvæði á einn frambjóðanda heldur verður á dreifa þeim á fimm.

Þessi niðurstaða dregur úr möguleikum mótframbjóðenda núverandi stjórnarmanna. Tilnefningarnefnd Icelandair hefur nefnilega lagt til að umboð þeirra verði endurnýjað á aðalfundi flugfélagsins á föstudaginn.