Bæta við 120 flugleiðum fyrir sumarið

Allt frá því að Wow Air hætti starfsemi þá hefur Wizz Air verið næst umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli.

MYND: WIZZ AIR

Stjórnendur ungverska lágfargjaldaflugfélagsins Wizz Air hafa sótt inn á nýja markaði í yfirstandandi heimsfaraldri. Flugfélagið er til að mynda að hasla sér völl í innanlandsflugi í Noregi og á Ítalíu og opnaði nýverið sína fyrstu starfsstöð utan Evrópu, nánar tiltekið í Abu Dhabi.

Og nú hefur sumaráætlun félagsins verið stækkuð til muna með 120 nýjum flugleiðum. Þar kennir ýmissa grasa þó fókusinn hjá félaginu sé áfram á flug til og frá austurhluta Evrópu.

Þessar viðbætur við sumarprógramm Wizz Air ná þó ekki til Keflavíkurflugvallar. Dagskrá félagsins þar á bæ er nefnilega óbreytt frá síðasta sumri og áfram gert ráð fyrir reglulegum ferðum hingað frá ellefu evrópskum borgum. Þar af eru fimm í Póllandi.