Boða flug til Íslands á ný þrátt fyrir að vera á barmi gjaldþrots

Eina flugfélagið sem haldið hefur úti ferðum milli Íslands og Tékklands stendur höllum fæti.

czech airlines
Mynd: Czech Airlines

Czech Airlines hefur síðustu ár haldið úti ferðum milli Íslands og Prag. Á tímabili spreytti tékkneska félagið sig jafnframt á áætlunarflugi hingað frá Kaupmannahöfn.

Ferðirnar til Keflavíkurflugvallar hafa hins vegar legið niðri frá því að heimsfaraldurinn hófst. Sala á flugmiðum til Íslands hefur þó haldið áfram og í allan vetur hefur verið hægt að bóka flug með félaginu frá Íslandi til Tékklands nú í sumar. Fyrr í þessari viku gaf Czech Airlines svo út að hefja ætti flug til Íslands á nýjan leik frá Prag 2. maí nk.

Staða þessa fimmta elsta flugfélags í heimi er hins vegar óvenju erfið. Tékknesk stjórnvöld hafa nefnilega ekki viljað grípa til sértækra aðgerða til að styðja við það í heimsfaraldrinum. Fyrr í þessum mánuði óskuðu stjórnendur Smart wings, móðurfélags Czech Airlines, því eftir greiðslustöðvun líkt og Túristi greindi frá. Og nú er félagið komið í gjaldþrotameðferð.

Helstu vanskil Czech Airlines í dag er nærri sex milljarða króna skuld félagsins við farþega.