Bólusettir Bandaríkjamenn eiga að bíða lengur með utanlandsferðir

Þeir sem hafa verið bólusettir í Bandaríkjunum mega nú hitta börn og barnabörn en halda sig frá löngum ferðalögum. Mynd: Heathrow airport

Nú í vetur hafa forsvarsmenn íslenskrar ferðaþjónustu lagt áherslu á að stjórnvöld gefi út til lengri tíma hvernig og hvenær slakað verður á sóttvörnum við landamærin. Ráðamenn þjóðarinnar svöruðu þessu kalli með því að gefa út í ársbyrjun að ferðamenn ættu að komast með einfaldari hætti til Íslands frá og með 1. maí.

Ferðaþjónustan vestanhafs þarf þó að bíða lengur eftir þessum svokallaða fyrirsjáanleika. Í nýjum leiðbeiningum sem sóttvarnastofnun Bandaríkjanna gaf út á mánudaginn, til þeirra sem teljast að fullu bólusettir, segir nefnilega að reglur um að ferðalög verði áfram óbreyttar.

Tilmæl stofnunarinnar til þeirra 32 milljóna Bandaríkjamanna, sem fengið hafa tvo skammt af bóluefni, eru því þau að fara ekki í löng ferðalög eins og segir í frétt Wall Street Journal.

Góðu fréttirnir fyrir bólusetta Bandaríkjamenn eru hins vegar þær að þeim er nú óhætt að hitta börn og barnabörn sem ekki hafa fengið bóluefni. Og einnig má bólusett fólk safnast saman í minni hópum innandyra án þess að vera með grímu.