Bresk stjórnvöld flýta ákvörðun um millilandaflug

Frá flugstöðinni við Heathrow í London. MYND: HEATHROW AIRPORT

Þeir íbúar Bretlands sem eiga erindi til útlanda þurfa í dag að fylla út opinbert eyðublað um ferðir sínar og fara í sóttkví við komuna heim. Þessar takmarkanir á ferðum til og frá Bretlandi munu gilda að minnsta kosti fram til 17. maí.

Þegar tilkynnt var um þessar mögulegu tilslakanir þá fylgdi sögunni að endanlega ákvörðun lægi fyrir þann 12. apríl. Nú hefur Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ákveðið að færa tilkynninguna fram um viku.

Þann 5. apríl ætti þá að koma í ljós hvort Englendingar geti ferðast til útlanda frá 17. maí og með hvaða hætti. Stjórnvöld í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi taka ákvarðanir um ferðafrelsið fyrir sitt fólk.