Endurreisn Norwegian fær grænt ljós

Jacob Schram, forstjóri Norwegian. MYND: NORWEGIAN

Senn sér fyrir endann á fjögurra mánaða greiðslustöðvun Norwegian í Írlandi. Þar í landi er stærsti hluti flugflota félagsins skráður og í nóvember í fyrra óskuðu stjórnendur Norwegian eftir greiðslustöðvun hjá írskum dómstólum.

Síðan þá hefur verið unnið að sátt milli flugfélagsins og kröfuhafa um tugmilljarða króna afskriftir. Seinnipartinn í gær, föstudag, veitti svo írskur dómari samþykki sitt fyrir þeim áformum sem stjórnendur Norwegian hafa lagt fram um endurreisn félagsins.

Jacob Schram, forstjóri Norwegian, segir í tilkynningu að þessi niðurstaða í írska réttinum auki líkurnar á að norskir dómstólar veiti líka sitt samþykki. Rekstur Norwegian í heimalandinu er einnig í greiðslustöðvun.

Næsta skref fyrir stjórnendur Norwegian er svo að sækja aukið hlutafé en líkt og Túristi hefur fjallað um þá hafa norskir fjárfestar tekið vel í að setja fé í tvö flugfélög í Noregi sem nú eru í startholunum, bæði Flyr og svo Norse Aviation Airways.