Framlengja ferðaviðvaranir til 15. maí

Flugvöllurinn við Gardermoen í nágrenni Ósló. MYND: AVINOR

Norðmenn eiga ekki að skipuleggja neinar utanlandsferðir nú í vor eða fyrri hluta sumars. Þetta er haft eftir Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, í tilkynningu frá norska utanríkisráðuneytinu.

Þar kemur jafnframt fram að norsk stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að framlengja núgildandi ferðaviðvaranir til Norðmanna fram til 15. maí í hið minnsta.

Icelandair, Norwegian og SAS bjóða alla jafna upp á áætlunarflug milli Íslands og Óslóar. Ferðirnar hafa þó legið niðri síðustu mánuði en Icelandair bauð upp á nokkrar ferðir héðan til Noregs í kringum jól og áramót.

Þota Icelandair flaug svo til Óslóar í gær á nýjan leik og næsta ferð er á dagskrá á sunnudaginn.