Getur sparað tíma og pening að bóka ekki innanlands- og millilandaflug saman

Nú heyrir áætlunarflug Air Iceland Connect undir Icelandair og því hægt að bóka flug á heimasíðu flugfélagsins frá Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Vestmannaeyjum og þaðan út í heim.

Sá hængur er á að íbúar landsbyggðarinnar ná ekki morgunfluginu út í heim og úrval af Evrópuflugi seinni partinn er lítið. Vegna þeirra takmarkanna þá leggur leitarvél Icelandair oft til ferðalag með tveimur millilendingum. Önnur þeirra er reyndar ekki bara millilending því farþegarnir þurfa auðvitað að koma sér á milli Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar.

Það flækjustig losna þeir ekki við sem fljúga með Icelandair innanlands en svo með erlendu flugfélagi til útlanda. Aftur á móti getur sá hópur sparað sér tíma og jafnvel tugir þúsunda króna.

Tökum tvö dæmi:

Egilsstaðir-Frankfurt, 24. jún til 1. júlí

Icelandair leggur til: Frá Egilsstöðum klukkan níu að fimmtudagsmorgni og lent í Reykjavík klukkustund síðar. Frá Keflavík svo flogið klukkan 15:55 og lent hálf tíu um kvöld í Frankfurt. Heimferðin kallar á millilendingu í Amsterdam.

Fargjaldið. 96.680 kr. og ferðatími (báðar leiðir) 20,5 klukkutími.

Einfaldari og ódýrari leið: Frá Egilsstöðum klukkan 9 en í stað þess að bíða til klukkan fjögur eftir vél Icelandair þá er flogið með Lufthansa kl. 13:35. Lent um kvöldmatarleytið í Þýskalandi. Á heimleiðinni flogið frá Frankfurt 10:30 og seinni vélin er svo komin til Egilsstaða 19:35

Fargjaldið: 74.155 kr. og ferðlagið (báðar leiðir) tekur samtals um 16 klst.

Akureyri-New York, 9. til 17.júlí

Icelandair leggur til: Frá Akureyri í hádeginu þann níunda og brottför frá Keflavíkurflugvelli sjö klukkustundum síðar. Heimferðin gerir ráð fyrir 6 klukkustundum frá komunni til Keflavíkurflugvallar og þar til flogið verður frá Reykjavík til Akureyrar.

Fargjaldið: 79.850 kr. og ferðalagið (báðar leiðir) samtals 23 klst.

Einfaldir og ódýrari leið: Frá Akureyri 8:25 á föstudagsmorgni. Beint út á Keflavíkurflugvöll við komuna til höfuðborgarinnar til að ná þotu United til New York kl. 11:40. Á heimleiðinni er biðin milli flugferða líka styttri eða fjórir tímar.

Fargjaldið 67.250 kr. og ferðalagið (báðar leiðir) 19,5 klst.

Verðmunurinn getur verið miklu meiri ef flogið er með lággjaldaflugfélagi frá Keflavíkurflugvelli. Og sérstaklega ef viðkomandi er aðeins að leita að miða aðra leiðina.

Það sem stendur þessari nýju þjónustu Icelandair fyrir þrifum er auðvitað að farþeginn þarf að fara milli Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvallar. Úrval af Evrópuflugi er líka langmest hjá Icelandair í morgunsárið sem fyrr segir. Á sama tíma eru ferðirnar frá Ísafirði og Vestmannaeyjum fáar sem takmarkar sannarlega úrval af ferðum sem íbúum þessara bæja standa til boða frá Keflavíkurflugvelli sama dag og haldið er úr heimabyggð.