Hafa tekið út flugið milli Íslands og Spánar

Nú er endanlega ljóst að Norwegian ætlar ekki að taka upp þráðinn í áætlunarflugi sínu til Keflavíkurflugvallar frá Spáni.

Nú stefnir að þotur Norwegian muni aðeins fljúga hingað til lands frá Ósló. MYND: NORWEGIAN

Umsvif Norwegian hafa nú í heimsfaraldrinum takmarkast við flug innan Skandinavíu. Ferðir félagsins til Íslands frá Noregi og Spáni hafa því legið niðri. Engu að síður hefur verið hægt að bóka sæti á heimasíðu félagsins í flug frá Keflavíkurflugvelli til Óslóar, Alicante og Barcelona langt fram í tímann.

Nú hefur Norwegian hins vegar tekið úr sölu allar ferðir frá spænsku borgunum til Íslands. Áfram er þó gert ráð fyrir áætlunarferðum hingað frá Ósló. Fyrsta brottför ársins er á dagskrá þann 6. maí nk.

Það kemur ekki á óvart að Norwegian hafi tekið flugið milli Íslands og Spánar úr sölu. Því líkt og Túristi hefur bent á þá voru fargjöldin óvenju há. Þess háttar verðlagning er oft undanfari þess að flugleið sé felld niður. Einnig liggur það fyrir að Norwegian mun ósennilega opna starfsstöðvar sínar á Spáni eftir að heimfaraldrinum lýkur.

Þegar mest lét þá flugu þotur Norwegian til Íslands frá fimm spænskum borgum; Alicante, Barcelona, Las Palmas, Tenerife og Madríd.

Líkt og Túristi hefur áður rakið þá jók þetta áætlunarflug norska flugfélagsins mjög á ferðamannastrauminn hingað frá Spáni yfir vetrarmánuðina.