Icelandair rýkur upp

Þota Icelandair við flugstöðina í Denver en ferðir félagsins til borgarinnar hafa legið niðri síðustu misseri. Mynd: Denver Airport

Gengi hlutabréfa Icelandair Group var rétt 1,31 króna í hádeginu í dag og hafði ekki verið jafnt lágt síðan um miðjan nóvember í fyrra. Gengi bréfanna hefur hins vegar hækkað um tíund síðastliðna klukkustund og er komið upp í 1,46 nú klukkan korter yfir eitt.

Skýringin á þessari uppsveiflu liggur vafalítið í yfirlýsingu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, í hádegisfréttum RÚV um að þeir sem eru bólusettir og búsettir utan Schengen-svæðisins megi koma til landsins. Þar með opnast á ferðir Bandaríkjamanna, Breta og fleiri þjóða hingað til lands.

Þess má geta að verðmæti bréfa Icelandair fór hæst þann 8. febrúar sl. þegar margir gerðu sér vonir um að Ísland fengi forgang að bóluefnum frá Pfizer. Þá kostaði hver hlutur í flugfélaginu í 1,84 krónur. Gengið núna er fimmtung undir því verði.