Keflavíkurflugvöllur fær viðurkenningu fyrir hreinlæti

Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. MYND: ISAVIA

Keflavíkurflugvöllur er í hópi með fimmtán öðrum flugvöllum í Evrópu sem hljóta sérstaka viðurkenningu Alþjóðasamtaka flugvalla fyrir hreinlæti á síðasta ári.

Í tilkynningu frá Isavia segir að á síðasta ársfjórðungi 2020 hafi Alþjóðasamtök flugvalla bætt við nýjum verðlaunaflokki við þjónustukönnun sína. Þar er metin upplifun farþega af öryggi- og hreinlæti á viðkomandi flugvöllum og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til eftir að heimsfaraldur Covid-19 hófst. Þar mældist Keflavíkurflugvöllur í hópi efstu 25 prósent flugvalla í Evrópu sem farþegar töldu hafa gripið til bestu hreinlætis- og öryggisaðgerða í tengslum við baráttuna gegn Covid-19.

„Á þessum erfiðu tímum heimsfaraldurs höfum við á Keflavíkurflugvelli hlustað á viðskiptavini okkar og með góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld gripið til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja hreinlæti og öryggi fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, í tilkynningu.

Auk viðurkenningar fyrir hreinlæti er Keflavíkurflugvöllur þriðja árið í röð á meðal þeirra flugvalla í Evrópu í sínum stærðarflokki sem veita bestu þjónustuna samkvæmt könnun ACI.

Guðmundur Daði segir að viðurkenningin sé kærkomin enda hafi allt starfsfólk á flugvellinum lagt sig fram við að veita góða þjónustu, náð að halda góðum tengingum og hlustað á viðskiptavini flugvallarins og eigi miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt á erfiðum tímum.

„Þessi viðurkenning er jafnframt gott innlegg inn í þær framkvæmdir sem er verið að ráðast í á Keflavíkurflugvelli. Með hlutafjáraukningu í félaginu, sem tilkynnt var um nýverið, munum við hafa burði til að halda áfram að fjárfesta í bættri upplifun á flugvellinum fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Guðmundur Daði.